IFS Greining spáir því að tekjur stoðtækjafyrirtækisins Össurar nemi 130 milljónum dala á fjórða fjórðungi síðasta árs og EBITDA framlegðin sé um 28 milljónir dollara. Þetta kemur fram í afkomuspá fyrir lokafjórðung ársins sem IFS Greining birti í morgun.

Össur mun birta rekstrartölur miðvikudaginn í næstu viku, 5. febrúar. Daginn eftir heldur félagið kynningarfundi, bæði á netinu og í höfuðstöðvunum á Grjóthálsi. Lokafjórðungur liðins árs er sá fyrsti með sænska stoðtækjadreifingarfyrirtækið TeamOlmed í bókum félagsins auk 2ja annarra minni. IFS greining segir að þetta muni hafa talsverð áhrif á rekstrartölurnar og skekki samanburð við sama fjórðung 2012.