Í nýrri endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er því spáð að atvinnuleysi aukist fram eftir árinu 2009 og verði að meðaltali 7,8% það ár. Árið 2010 er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði 8,6% af vinnuafli en byrji að ganga niður á því ári.

Þá er því spáð að verðbólga verði 13,1% árið 2009 en hún var 12,4% árið 2008. Þá er áætlað að verðbólga verði að meðaltali 2,7% árið 2010 og að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist á því ári.

Fjármálaráðuneytið spáir því að halli ríkissjóðs á þessu ári verði um 12,3% af landsframleiðslu.

Miðað er við að Seðlabankinn fylgi aðhaldssamri peningastjórn þar til gengi krónunnar er aftur komið á flot og skýr merki eru um að jafnvægi hafi myndast á gjaldeyrismarkaði.