Þrátt fyrir metaukningu ferðamanna undanfarin tvö ár gerir Hagfræðideild Landsbankans ráð fyrir áframhaldandi kröftugri aukningu á komandi árum.

Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu deildarinnar um vöxt og væntingar ferðaþjónustunnar sem kemur út í dag.

Spá hagfræðideildarinnar gerir ráð fyrir um 15% fjölgun ferðamanna á þessu ári og um 11% meðalvexti á árunum 2014 og 2015. Þá segir í skýrslunni að greinilegt sé að stærri fyrirtæki skila meiri rekstrarhagnaði og eru að jafnaði arðsamari í öllum flokkum ferðaþjónustunnar.

Hið dæmigerða ferðaþjónustufyrirtæki sé hins vegar lítið og oft rekið sem nokkurs konar hliðarstarfsemi meðfram annarri vinnu eigandans eins og kom fram hér á vef Viðskiptablaðsins í morgun. Niðurstaða greiningarinnar sýnir að aðeins tæplega helmingur fyrirtækjanna í úrtakinu skilaði rekstrarhagnaði árið 2011, sem þó hefur verið talið eitt besta ár ferðaþjónustunnar til þessa.

Þá er rifjað upp í skýrslunni að alls fóru 647 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð árið 20121. Gert er ráð fyrir að um 96% erlendra ferðamanna sem sækja landið heim fari um Leifsstöð og því gefur talningin þar mjög góða vísbendingu um heildarfjölda erlendra ferðamanna á Íslandi. Þeir sem ekki fara þá leið, koma með Norrænu og um aðra flugvelli. Ferðamönnum um Leifsstöð fjölgaði um 19,6% milli áranna 2011 og 2012. Það er annað árið í röð sem svo mikil fjölgun milli ára hefur orðið, á árabilinu 2010 - 2011 nam aukningin 17,8%.