Greiningardeild Íslandsbanka spáir 15% hækkun á Úrvalsvísitölu Aðallista árið 2005 og er það nokkuð í takti við þá ávöxtunarkröfu sem þeir gera að meðaltali til félaganna í vísitölunni. Rétt er að geta þess að innan hópsins sem vann þessa skýrslu liggja spárnar á breiðara bili, eða 8-24%. "Þetta breiða bil endurspeglar fyrst og fremst þá óvissu sem í spánni ríkir og þá í leiðinni ólík viðhorf um þróun stærstu félaganna, sérstaklega hvað varðar ytri vöxt. En samhljómur er í þeirri skoðun að markaðurinn muni ekki taka út lækkun í ár," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Verðkennitölur sem byggja á afkomuspánni 2005 eru hærri, en ekki umtalsvert hærri en kennitölur sem byggðust á afkomuspánni sem við gerum í janúar fyrir ári síðan. Á þann mælikvarða hefur verðlagning hlutabréfa því ekki hækkað umtalsvert, þrátt fyrir mikla hækkun hlutabréfaverðs í fyrra segir í Morgunkorninu.