Reykjavíkurborg áætlar að halli af A-hluta borgarinnar verði um 15,3 milljarðar króna í ár en 8,9 milljarða halli var af A-hlutanum á fyrri helmingi ársins. Samkvæmt nýbirtri fjármálaáætlun borgarinnar er því gert ráð fyrir meira en 6 milljarða króna halla af A-hlutanum á síðustu sex mánuðum ársins.

Fjárhagsáætlun A-hluta fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði neikvæð um 6 milljarða en að afkoman verði jákvæð frá og með árinu 2024.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 15,4 milljarða króna í ár en þar spilar inn í matshækkun á félagslegum íbúðum Félagsbústaða, en þær námu yfir 20 milljörðum á fyrri hluta ársins.

Áætlað er að í lok árs 2023 nemi eignir Reykjavíkurborgar samtals 923 milljörðum króna og aukist um 76,2 milljarða á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall nemi 49,8% og hækki um 2%.

„Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar en hröð kólnun í hagkerfinu og á vinnumarkaði leiddi til þess að tekjur borgarinnar voru töluvert undir áætlun árin 2020 og 2021. Vonir stóðu til þess að viðsnúningur yrði kröftugur á árinu 2022 og að hagkerfi heimsins kæmust á sama stað og fyrir faraldur en það hefur ekki gengið að fullu eftir,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Þar segir að talsvert lakari afkomu á rekstri A-hluta borgarinnar en gert var ráð fyrir megi einkum rekja til verðbólgu og vanfjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks „sem hefur farið sívaxandi á umliðnum árum og ógnar nú fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar“.

„Án skilnings frá ríkinu á fjármögnun þeirrar þjónustu sem ríkið sjálft gerir kröfu um, þá verður þessi málaflokkur vanfjármagnaður og það er ekki bara grafalvarlegt fyrir þjónustu sveitarfélaga og fjárhag heldur bitnar það helst á þeim sem eiga rétt á þjónustunni og bíða frekari uppbyggingar í honum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Stöðva ráðningar

Tekið fram að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár taki mið af framangreindum þáttum. Gætt sé aðhalds í framlögum til málaflokkanna ásamt því að sett er fram áætlun um aðgerðir með hliðsjón af markmiði fjármálastefnu um jafnvægi í rekstri og styrkingu veltufjár frá rekstri.

„Á næstu misserum er ekki gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til og leggja borgaryfirvöld áherslu á að sviðsstjórar og aðrir stjórnendur gæti aðhalds í launaútgjöldum og reyni að finna aðrar leiðir en endurráðningar í laus störf.“

Dagur segir að þó verði passað upp á fjármögnun framlínuþjónustu og ræðir þar sérstaklega um Græna planið.

„Við drögum saman í fjárfestingaráætlun þótt áfram verði passað upp á að sinna viðhaldsmálum og uppbyggingu innviða í vaxandi borg. Þannig verða áherslur Græna plansins um græna og vaxandi borg sem leggur áherslu á allt í senn; efnahagslega sjálfbærni, umhverfislega sjálfbærni og samfélagslega sjálfbærni áfram leiðarljós borgarinnar,“ segir Dagur.