Greiningardeild MP banka reiknar með því að vísitala neysluverðs hækki um 0,8% þegar Hagstofan birtir næstu mælingu vístölunnar þann 24. febrúar. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan í 1,5%.

„Verulega hefur dregið úr útsölum þótt enn séu einhver tilboð í gangi, einkum í húsgagnaverslunum. Við gerum ráð fyrir að útsölur á fötum og skóm gangi til baka á svipaðan hátt og í fyrra en húsgagnaútsölum ljúki að hluta til seinna. Hækkun vísitölunnar vegna útsöluloka gæti því orðið aðeins minni en í fyrra en flyst þá að hluta yfir á næsta mánuð,“ segir í spá greiningardeildarinnar.

„Gengi krónunnar hefur veikst um rúma prósentu síðastliðinn mánuð og um rúmlega fjórar prósentur síðustu þrjá mánuði. Auk þess hefur hrávöruverð haldið áfram að hækka á heimsmarkaði. Við reiknum því með nokkurri hækkun matarverðs í mánuðinum. Þá hefur bensínverð hækkað um rúm 2% frá mælingu vísitölunnar í síðasta mánuði.

Stærsti liður vísitölu neysluverðs sem er að lækka í mánuðinum er húsnæðisliðurinn. Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 1,2% í desember og stóð því nánast í stað yfir árið. Áhrifa þessarar lækkunar gætir enn, auk þess sem vextir hafa einnig lækkað aðeins undanfarið.

Heildarniðurstaðan er því 0,8% hækkun vísitölunnar í febrúar.“