IFS greining hefur gefið út afkomuspá fyrir 2. ársfjórðung og árið 2014 hjá Marel, en félagið mun birta uppgjör sitt fyrir 2. fjórðung á morgun. IFS greining spáir 170 milljóna evra tekjum hjá Marel á 2. ársfjórðungi, samanborið við 178 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Greiningin spáir því að tekjur fyrir árið verði 659 milljónir evra.

Samkvæmt spánni verður 5 milljóna EBIT á 2. ársfjórðungi og 26 milljónir á árinu.

Vegna umtalsverðra breytinga sem ríkja hjá Marel er nokkur óvissa í spánni og IFS telur að ekki sé ólíklegt að nokkur frávik rauntalna og spár komi fram. Gert er ráð fyrir um 14 milljóna evra umbreytingakostnaði hjá félaginu á árinu.

Útgefin markmið félagsins um aðlagað EBIT á árinu 2014, þar sem ekki er tekið tillit til umbreytingakostnaðar, er 55 milljónir evra. Samsvarandi tala í spá IFS greiningar er um 40 milljónir evra.