Greining Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 1,2% í desember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga aukast úr 17,2% í 17,8%.

„Að þessu sinni gerum við ráð fyrir að þeir vöruflokkar sem að mestu leyti eru innfluttir vegi þyngst til hækkunar, en það eru t.d. föt og skór, húsgögn og heimilisbúnaður og innflutt matvæli,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þá segir greiningardeildin að verðhækkun á matvælum muni þó verða minni en ella þar sem þær vörur sem mestan veltuhraða hafa í dagvöruverslunum hafa þegar tekið að lækka eftir styrkingu krónu í kjölfar enduropnunar millibankamarkaðar.

„Veruleg lækkun eldsneytis undanfarinn mánuð vegur á móti til lækkunar vísitölunnar, auk þess sem lítil hækkun húsnæðisliðar og þjónustu ýmis konar mun að öllum líkindum draga úr heildarhækkun VNV að þessu sinni,“ segir einnig í Morgunkorni.

Þá segir Greining Glitnis verðbólguna nú við það að ná hámarki.

„Teljum við að ársverðbólgan muni fara hæst í 18% á fyrstu mánuðum næsta árs,“ segir í Morgunkorni.

„Í kjölfarið mun verðbólgan minnka hratt, bæði vegna þess að hækkun verðlags verður lítil að jafnaði og eins sakir þess að miklir verðbólgumánuðir taka að detta út úr 12 mánaða taktinum frá og með febrúar næstkomandi. Spáum við því að verðbólga verði komin niður í ríflega 4% í lok næsta árs, og að verðbólgan verði í grennd við 2,5% markmið Seðlabankans árið 2010.“

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.