Greiningardeild KB banka spáir því að fasteignaverð muni koma til með að hækka um 20% í ár á höfuðborgarsvæðinu og því er ljóst að viðvarandi hiti verður á fasteignamarkaði í ár.

Þetta kom fram á morgunvarðarfundi sem greiningardeildin hélt um málið um leið og skýrsla var kynnt. Þar voru orsakir hækkana á fasteignamarkaði til umfjöllunar. Farið er m.a. yfir þróun fasteigna- og lóðaverðs á síðustu árum og lagt mat á hve fasteignamarkaðurinn geti hækkað mikið þegar til lengri tíma er litið, að teknu tilliti til nýrra lána á lægri vöxtum. Gerð er grein fyrir spá Greiningardeildar um þróun fasteignaverðs á árinu og jafnframt velt upp þeirri spurningu hvort fasteignaverð sé ofmetið í vísitölu neysluverðs.