Greiningardeild Glitnis spáir 20% hækkun á Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar frá ársbyrjun til ársloka sem þýðir að greiningardeildin teljur svigrúm til tæplega 6% hækkunar hlutabréfaverðs á lokafjórðungi ársins.

Innan hópsins sem vann skýrsluna voru mismunandi væntingar um þróun hlutabréfaverðs eða frá 15% til 25% frá ársbyrjun til ársloka. Allir reikna hins vegar með frekari hækkun út árið. Spá Glitnis er í takti við þá spá sem greiningardeildin gáf út í janúar og apríl á þessu ári segir í Morgunkorni þeirra. Þá spáðu þeir einnig 20% hækkun yfir árið.

Í júlí lækkaði greiningardeildin spá sína um hækkun ársins í 8% þar sem spábilið reyndist frá -5% til +20%. Litaðist sú spá mjög af þeirri neikvæðu umræðu sem var á hlutabréfamarkaðinum eftir mikla lækkun frá miðjum febrúar.

Frá því spá þeirra í júlí var gefin út hefur glæðst yfir hlutabréfamarkaðnum og ríkir nú minni óvissa um helstu áhrifaþætti hlutabréfaverðs. "Við teljum að þrátt fyrir góða hækkun hlutabréfaverðs á þriðja fjórðungi sé enn ágætt kauptækifæri í hlutabréfum nokkurra félaga og að þau muni draga vagninn í væntri hækkun á lokafjórðungi ársins," segir greiningardeildin.