Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða, en Hagstofa Íslands mun birta vísitölu neysluverðs fyrir ágúst þann 27. ágúst.

Ef spáin gengur eftir mun ársverðbólga lækka úr 2,4% í 2,2%. Hagfræðideildin spáir því að föt og skór hækki í ágúst vegna útsöluloka og hafi 0,34% áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs.

Samkvæmt verðmælingu Hagfræðideildarinnar hefur eldsneyti hins vegar lækkað milli mánaða og hefur það 0,09% áhrif til lækkunar. Þá gerir spáin ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda hafi lækkað milli mánaða og muni hafa 0,16% áhrif til lækkunar vísitölu neysluverðs.

Bráðabirgðaspá Hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir 0,4%  hækkun í september, 0,1% í október og 0,2% í nóvember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan í nóvember mælast 2,2%