Vísitala neysluverðs mun hækkað um aðeins 0,2% á milli ára og verðbólga fara úr 2,1% í 2,2% í mars, samkvæmt verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka. Gangi þetta eftir mun verðbólga áfram verða undir 2,5% verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að verðbólguhorfur fyrir yfirstandandi ár séu allgóðar og líti út fyrir að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans í árslok.

„Kjarasamningar á stærstum hluta almenns vinnumarkaðar eru nú í höfn, og mun kostnaðarþrýstingur vegna þeirra verða talsvert minni en verið hefur undanfarin ár. Þá hefur styrking krónu áfram jákvæð áhrif á innflutningsverð og hráefnaverð til innlendrar framleiðslu, þótt við gerum ekki ráð fyrir frekari styrkingu frá núverandi gildum,“ segir Greining Íslandsbanka og bætir við að í kjölfarið geri hún ráð fyrir að verðbólga aukist að nýju samhliða vaxandi umsvifum í hagkerfinu. Verðbólga verði engu að síður töluvert minni en hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár.

Greining Íslandsbanka heldur áfram:

„Sú þróun að verðbólga aukist að nýju þegar frá líður er hins vegar ekki óumflýjanleg. Ef gefnar eru þær forsendur í líkani okkar að laun hækki áfram með svipuðum hraða og raunin virðist ætla að verða í ár, og að gengi krónu haldist óbreytt frá núverandi gildum, verður spáin sú að verðbólga verði 2,9% yfir árið 2015 og 3,0% yfir árið 2016. Ljóst er því að það mun skipta verulegu máli fyrir verðbólguþróun komandi missera hvort tekst að halda aftur af hraðri nafnhækkun launa og verulegri veikingu krónu.“