Seðlabankinn býst við því að hagvöxtur verði meiri á árinu en áður var spáð. Bankinn gerir ráð fyrir því að hagvöxtur verði 2,3% í ár. Til samanburðar spáði bankinn 1,9% hagvexti í ár í ágúst. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu að hækkunin sé að hluta til komin vegna þess að hagvöxtur í fyrra var endurskoðaður til lækkunar úr 1,6% í 1,4% eftir að bankinn birti hagvaxtarspánna í ágúst. Þá var hagvöxtur á fyrri helmingi ársins umfram spár í ágúst en þá mældist hann 2,2%. Seðlabankinn hafði ekki reiknað með hagvexti á árinu.

Í Peningamálum Seðlabankans sem komu út samhliða vaxtaákvörðun í dag er jafnframt því spáð að hagvöxtur verði 2,6% á næsta ári í stað 2,8% í ágústspánni og árið 2015 er búist við 2,8% hagvexti í stað 2,9%. Gangi spáin eftir verður hagvöxtur að meðaltali 2,4% á ári á spátímanum sem er nálægt meðalhagvexti síðustu þrjátíu ára og meiri en að meðaltali í helstu viðskiptalöndum Íslands, að því er segir í Peningamálum.