Í nýrri skýrslu frá Íbúðalánasjóði Bretlands (National Housing Federation) er því spáð að húsnæðisverð í Bretlandi hækki um 25% fyrir árið 2013.

Spáð er 4,4% lækkun húsnæðisverðs á þessu ári og 2,1% lækkun árið 2009, en viðsnúningi og hækkun árið 2010 og meira en 9% hækkun bæði 2012 og 2013.

Það sem veldur er vaxandi eftirspurn, en lengri meðallíftími manna, að fólk giftir sig seinna á lífsleiðinni og að skilnuðum fjölgar auka á eftirspurnina.

Í frétt BBC segir að vissulega megi deila um hve nákvæmar spár sem ná 5 ár fram í tímann geta verið, en flestir séu þó sammála um að framboðsaukning muni ekki verða jafn mikil og eftirspurnaraukning á breskum húsnæðismarkaði á næstu árum.