„Þróun helstu hagvísa undanfarnar vikur gefa misvísandi vísbendingar um þróun stýrivaxta og gerum við ráð fyrir 25 pkt. hækkun. Þrátt fyrir að vðbólgumæling Hagstofunnar í maímánuði hafi verið hagfelld og dregið hefur þ.a.l. úr slaka peningastefnunnar frá síðasta stýrivaxtafundi þá telur IFS að hljómur nefndarinnar verði enn á þá leið að sumir telja nefndina vera of seina við að draga úr slaka peningastefnunnar.“ Þetta segir í stýrivaxtaspá IFS þar sem spáð er 25 punkta hækkun stýrivaxta næstkomandi miðvikudag.

Bent er á að hagvaxtartölur Hagstofunnar fyrir fyrsta ársfjórðung hafi gefið góða vísbendingu um sterkan efnahagsbata. Líkur séu á að slakinn í þjóðarbúskapnum sé minni en áætlanir geri ráð fyrir. „Einnig jókst samneysla um 1% milli ára sem veldur peningastefnunefndinni áhyggjum ef aðhald í ríkisfjármálum verður minna en áætlanir (ríkisstjórnarinnar og AGS) og spár SÍ gera ráð fyrir.

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði efur lækkað töluvert á undanförnum vikum þar sem verðtryggða krafan hefur verið að hækka og sú óverðtryggða að lækka vegna væntinga um hærri stýrivexti, lægri verðbólgu, sterkara gengi og lægra heimsmarkaðsverðs á hráolíu. Væntingar um að verðbólgan gæti verið minni á næstu misserum skýrist að einhverju leiti vegna hækkandi stýrivaxta og að þeir hafi einhver áhrif á verðbólgu til lækkunar. Vaxtamarkaðurinn virðist vera búinn að verðleggja 50 punkta hækkun stýrivaxta næsta mánuðinn.“