Þjóðhagsspá Hagstofunnar spáir 2,6% hagvexti á þessu ári, samanborið við 6,6% hagsamdrátt á því síðasta, og 4,8% vöxt á næsta ári.

Fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2022-26 er nokkuð bjartsýnni en sú síðasta, og er uppsafnaður hallarekstur ríkissjóðs til næstu 5 ára nú áætlaður um 650 milljarðar, í stað 900 í þeirri síðustu, sem lögð var fram í októberbyrjun og náði yfir árin 2021-2025.

Meginmarkmið áætlunarinnar eru að styðja við hagvöxt og stöðva skuldasöfnun, sem ráðgert er að náist að fjórum árum liðnum þegar skuldir sem hlutfall landsframleiðslu nái hámarki í 54%, í stað 60% í síðustu áætlun.

Atvinnuleysi og verðbólga nái hámarki í ár
Í Þjóðhagsspánni er því ennfremur spáð að atvinnuleysi nái hámarki í ár og verði 7,8% að meðaltali,en  fari svo minnkandi á ný. Horfur á vinnumarkaði séu jákvæðari til næstu ára eftir að bólusetning hófst.

Búist er við að verðbólga verði 3,2% í ár en hjaðni í markmið Seðlabankans, 2,5%, árin á eftir og út spátímann. Þá jókst kaupmáttur launa um 3,4% í fyrra, og er gert ráð fyrir 3,8% kaupmáttaraukningu í ár.

Fjármálakerfið er sagt hafa verið stöðugt þrátt fyrir efnahagsáfallið, að miklu leyti vegna viðskiptaafgangs við útlönd og jákvæðrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins, sem hafi stutt við gjaldeyrismarkaðinn og þar með fjármálastöðugleika. Í ofanálag sé eiginfjárstaða bankanna sterk.

Mestur vöxtur í fjármunamyndun og einkaneyslu
Er því spáð að einkaneysla vaxi um 2,3% í ár, 4,1% á því næsta en vöxturinn fari svo hjaðnandi út spátímann. Samneyslan vaxi um 1,1% í ár og 0,7% á því næsta, en verði lítillega neikvæð þar eftir fram á lokaár spátímans, 2026.

Fjármunamyndun vex um 5% í ár, 4,3% á því næsta og 5,7% árið 2023, en hjaðnar síðan í 2-3% samkvæmt spánni, og viðskiptajöfnuður af utanríkisviðskiptum verður jákvæður og vaxandi allan spátímann, um 0,9% í ár, 2,1% á því næsta, og um 3-4% þar eftir út spátímann.

Sóttvarnaraðgerðir höfðu, að því er fram kemur í spánni, veruleg áhrif á samsetningu neyslu Íslendinga, sem dróst saman um 62% erlendis, en jókst á móti innanlands, sér í lagi eftir vörum á kostnað þjónustu.

Í fjármálaáætlun eru megináherslur efnahagsaðgerða vegna faraldursins útlistaðar nánar. Beiting opinberra fjármála til að tryggja stöðugleika og skapa viðspyrnu, sem drifin verði áfram af verðmætum störfum og fjárfestingum með áherslu á menntun, rannsóknir, nýsköpun, innviði og umhverfismál. Loks er lækkun skulda og sjálfbærni opinberra fjármála nefnd, sem og nútímavæðing hins opinbera með stafrænni þjónustu.

Fréttin hefur verið uppfærð.