Hagstofan birtir marsmælingu vísitölu neysluverðs í þar næstu viku. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,5% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir lækkar verðbólgan úr 3,0% í 2,9%.

Bráðabirgðaspá hagfræðideildar til næstu þriggja mánaða er eftirfarandi:

  • Apríl:   +0,1% milli mánaða, 3,0% ársverðbólga.
  • Maí:    +0,1% milli mánaða, 3,2% ársverðbólga.
  • Júní.:  +0,2% milli mánaða, 2,8% ársverðbólga.

Að sögn hagfræðideildar lækka föt og skór venjulega milli mánaða í janúar vegna útsala og gangi sú lækkun venjulega til baka í febrúar og mars. Febrúarmánuður í ár hafi verið óvenjulegur að því leyti að þessi liður hækkaði mun minna en venjulega. Þetta sé þó ekki einsdæmi þar sem verðhækkunin árið 2017 hafi einnig verið mjög lítil. Þá hafi lítilli verðhækkun í febrúar verið mætt með töluvert mikilli hækkun í mars í staðinn. Telur hagfræðideildin líklegt að svipað verði upp á teningnum núna.

Samkvæmt verðkönnun hagfræðideildar hækkaði verð á bensíni og díselolíu um 2% milli mánaða. Heimsmarkaðsverð á hráolíu hafi sveiflast nokkuð á tímabilinu en endað nánast óbreytt frá upphafsverði í lok verðkönnunartímabilsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag , þá spáir greiningardeild Arion banka 3,1% verðbólgu í mars. Því eru greiningadeildir bankanna ósammála í spá sinni, þó munurinn sé vissulega smávægilegur.