Rio Tionto (eigandi álversins í Straumsvík) og BHP Billiton sem eru stærstu framleiðendur járngrýtis í heiminum eru taldir verða fyrir 30% skerðingu á verði vegna minnkandi eftirspurnar á stáli. Ef það gengur eftir verður þetta mesta verðfall síðan 1981, en verðið hækkaði um allt að 97% á síðasta ári.

World News Network fjallar um málið í dag og segir verðfallið byggt á úttekt átta sérfræðinga sem telja að fyrirtækin muni vegna verðfalls tapa niður sex ára ávinningi. Samkvæmt tölum World Steel Association í síðustu viku féll stálframleiðslan á heimsvísu um 24% í síðasta mánuði miðað við sama mánuð í fyrra. Þá hefur verð á heitvölsuðu stáli, sem notað er m.a. í bíla, fallið um 53% frá metverðinu sem náðist í júlí 2008 samkvæmt tölum Steel Business.

Stáliðnaðurin í Kína sem er sá umsvifamesti í heiminum í dag hefur farið fram á verulegar verðlækkanir frá framleiðendum járngrýtis í kjölfar verulegra hækkana á ýmsu hráefni á síðasta ári.

Wall Street Journal segir aftur á móti að járngrýtisframleiðendur vonist til 5% verðhækkana á árinu 2009 þar sem þeir hafi talið að botninum væri náð.

Eugen Weinberg hjá Commerzbank in Frankfurt segir hins vegar að þar á bæ sjái menn lítil merki um að markaðurinn sé að rétta við. Commerzbank telji því að botninum sé alls ekki náð. Þvert á móti sé hætta á að vaxandi þrýstingur sé að lækkun á „spot” verði járngrýtis sem hafi áhrif á verðsamninga fram í tímann.