Hagvöxtur verður 3,1% á þessu ári og 3,4% á því næsta, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands . Þjóðhagsspáin nær til ársins 2018.

Samkvæmt spánni munu þjóðarútgjöld aukast um u.þ.b. 5% árlega árin 2014 og 2015. Endurspeglar það vöxt einkaneyslu og fjárfestingar. Einkaneysla eykst um 3,9% og fjárfesting um 16,9% á þessu ári. Þá er því spáð að samneysla aukist um 1,2% árið 2014.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun verðtryggðra íbúðalána ásamt aukningu ráðstöfunartekna, sem má m.a. rekja til sterkari vinnumarkaðar, styður við aukna einkaneyslu á spátímanum.

Þá spáir hagstofan 2,5% verðbólgu á þessu ári, 3,4% á því næsta og 3,2% árið 2016.