Greining Íslandsbanka spáir 3,2% hagvexti á árinu í nýútkominni þjóðhagsspá. Fram kemur að hagvöxtur ársins verði fyrir tilstuðlan batnandi útflutnings í krafti vaxtar ferðaþjónustu, ásamt hóflegum vexti neyslu og fjárfestingar.

Samkvæmt þjóðhagsspá bankans verður hagvöxtur 5% á næsta ári, enda horfur á að bæði útflutningur og innlend eftirspurn nái enn sterkari viðspyrnu það ár. Á lokaári spárinnar er gert ráð fyrir 3,6% hagvexti þar sem útflutningur, fjárfesting og neysla skýra hvert um sig um þriðjung vaxtarins. Gangi spáin eftir verður landsframleiðslan loks meiri að raunvirði en hún var fyrir faraldurinn á lokaári spárinnar.

Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði 9,4% á árinu, 4,6% á næsta ári og 3,3% árið 2023, og að verðbólga verði 3% á árinu, 2,2% á því næsta og 2,3% árið 2023.

Bankinn gerir ráð fyrir að faraldurinn renni sitt skeið á árinu, endurreisn ferðaþjónustu hefjist að minnsta kosti að hluta og hagkerfið taki að braggast á síðari hluta ársins. Sviðsmyndin sem liggur til grundvallar hagspánni gerir ráð fyrir 700 þúsund ferðamönnum á þessu ári, að langstærstum hluta á seinni hluta ársins, 1,3 milljónum ferðamönnum á næsta ári og 1,5 milljónum ferðamanna árið 2023.

Viðspyrna ferðaþjónustu lykilatriði

Viðkvæmasta breytan í spánni er upptakturinn í komum ferðamanna. Bjartsýn sviðsmynd bankans gerir ráð fyrir tæplega milljón ferðamönnum á árinu en sú svartsýna gerir ráð fyrir 400 þúsund ferðamönnum.

Gangi bjartsýn sviðsmynd bankans eftir gæti hagvöxtur orðið hátt í 5% á þessu ári en verði svartsýn sviðsmynd að veruleika gerir bankinn ráð fyrir að hagvöxtur verði ekki mikið yfir einni prósentu.

Atvinnuleysi á árinu gæti þannig orðið á bilinu 7,8% til 10,5% á árinu, eftir upptaktinum í komum ferðamanna. Þá gæti verðbólga orðið á bilinu 2,9% til 3,3% og gengisvísitala krónunnar á bilinu 195, til 203,8.

Fram kemur í spánni að ef svartsýn sviðsmynd verður að veruleika muni vöxtur í mun meiri mæli færast yfir á næsta ár. Það hefði aftur á móti í för með sé mun víðtækari gjaldþrot fyrirtækja og greiðsluerfiðleika heimila, langvinnari halla á opinberum fjármálum. Þá verði hætt við að margs konar samfélagsleg vandamál nái að grafa um sig, sem erfitt gæti reynst að vinda ofan af.

Það skipti því miklu máli að ferðaþjónustan nái vopnum sínum fyrr en síðar.

Þjóðhagsspá Íslandsbanka 2021-2023
Þjóðhagsspá Íslandsbanka 2021-2023