Greining Íslandsbanka telur horfur í efnahagsmálum góðar um þessar mundir og spáir 3,2% hagvexti á árinu og 3,3% hagvexti á næsta ári. Árið 2016 er svo gert ráð fyrir að dragi úr hagvexti og að hann verði 2,4%. Hagvöxturinn í  er svipaður og mældist í fyrra. Fram kemur í Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka að hagvöxtur á þessu ári verðir af töluvert öðrum toga en í fyrra. Á síðasta ári var hagvöxtur drifinn áfram af utanríkisviðskiptum. Nú mun hann verða drifinn áfram af einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi.

Á næsta ári gerir Greining Íslandsbanka svo ráð fyrir því að hagvöxtur verði drifinn áfram af vexti í fjárfestingum, þá sérstaklega í fjárfestingum atvinnuveganna. Líka er reiknað með nokkuð kröftugum vexti í útflutningi vöru og þjónustu. Aukinn innflutningur veldur því hins vegar að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði áfram neikvætt.

Greining Íslandsbanka segir minni vöxt í fjárfestingum og útflutningi skýra minni hagvöxt að mestu árið 2016. Innlend eftirspurn og útflutningur muni þó halda áfram að vaxa. Út allt spátímabilið muni fjárfestingarstigið í hagkerfinu hækka eftir að hafa verið mjög lágt. Þá mun þjóðhagslegur sparnaður einnig aukast á tímabilinu af þessum sökum.