*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 15. október 2020 12:43

Spá 3,2% verðbólgu í október

Íslandsbanki spáir fyrstu lækkun vísitölu neysluverðs í mánuðinum frá því kórónuveirufaraldurinn hófst í mars.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Verðbólga lækkar í 3,2% í október úr 3,5% tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs fyrir september ef spá Íslandsbanka um 0,2% lækkun vísitölunnar í október gengur eftir. Þar með væri október fyrsti mánuður hjaðnandi verðbólgu frá því í mars á þessu ári, þegar hún var 2,1%, en hún hefur vaxið jafnt og þétt síðan.

Þó telur bankinn útlit fyrir að verðbólgan verði áfram yfir markmiði Seðlabankans, en gera megi ráð fyrir að það sé tímabundið ástand. Þannig spáir greining bankans að verðbólgan mælist að meðaltali 2,8% á þessu ári, 3,1% á árinu 2021 og 1,9% árið 2022.

Veiking krónunnar að koma inn í verðlagið

Byggir bankinn það m.a. á því að þó gengi krónunnar hafi haldist tiltölulega stöðug undanfarnar vikur eftir tilkynningu Seðlabankans um reglulega sölu gjaldeyris til áramóta, sé veiking krónunnar fyrr á árinu nú að koma inn í verðlagið.

Til að mynda hækkar verð ökutækja umtalsvert annan mánuðinn í röð, eða um 2%, eftir nokkurn stöðugleika framan af ári, og vegur það þyngst til hækkunar neysluverðsvísitölunnar í þessum mánuði.

Flugfargjöldin lækka hins vegar, eða um 9% milli mánaða, og heldur breytingin þannig aftur af hækkuninni, en tekið er fram að örðugleikar hafi verið í mælingunum vegna hertra sóttvarnaraðgerða.

Matvæli hafi líka hækkað, eða um 0,22%, en eldsneytisverð helst nú óbreytt þriðja mánuðinn í röð. Húsgögn og heimilisbúnaður vóg mest til hækkunar í september, en nú nemur hækkunin þar einungis 0,02%. Hins vegar heldur íbúðaverð áfram að hækka þrátt fyrir mótvind.