Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni lækka um 0,4% milli mánaða í janúar. Ef spáin gengur eftir hjaðnar verðbólga úr 4,2% niður í 3,5% þar sem neysluverðsvísitala hækkaði um 0,3% í janúar í fyrra.

Greining Íslandsbanka segir að verðbólguhorfur fyrir komandi fjórðunga hafi batnað talsvert, enda hafi þróun helstu óvissuþátta í spám síðustu mánaða verið til lækkunar á verðbólguvæntingum. Má þar nefna kjarasamninga, gengi krónu og aðhald í ríkisfjármálum.

Greining spáir því að tólf mánaða verðbólga fari niður í 2,6% í febrúar en taki síðan að stíga að nýju. Verðbólga verði 2,9% í apríl, 3,0% í júní og 3,1% í árslok. Verðbólgan taki svo að aukast aftur á næsta ári.