*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 14. janúar 2021 15:29

Spá 3,9% verðbólgu í janúar

Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs lækki í næsta mánuði en samt sem áður hækki verðbólgan.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs muni lækka um 0,42% í janúar frá því í desember, en þá hækkaði hún um 0,20% frá fyrri mánuði að því er segir í nýrri Hagsjá bankans. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá rétt fyrir jól fór 12 mánaða verðbólga þar með í 3,6%, en þrátt fyrir þá lækkun sem bankinn býst við núna mun 12 mánaða verðbólga fara í 3,9% gangi spáin eftir.

Eftir það spáir hagfræðideild bankans því að verðbólgan lækki, með 0,52% hækkun vísitölunnar í febrúar svo ársverðbólgan fari í 3,5%, með 0,37% hækkun vísitölunnar í mars sem þýði 3,7% ársverðbólgu og loks 0,13% hækkun vísitölunnar í apríl sem þýðir 3,3% ársverðbólgu.

Viðskiptablaðið hefur greint frá því að misvel hefur gengið hjá bönkunum og greiningarfyrirtækjum að spá fyrir um verðbólguþróunina, en hún varð meiri en þau höfðu spáð undir lok árs, enda margir óvissuþættir eins og gengi krónunnar, húsnæðisverð og áhrif vaxtabreytinga sem og heimsmarkaðsverð olíu líkt og farið er yfir í Hagsjá Landsbankans.

Þannig lágu opinberar spár fyrir desembermánuð á þróun vísitölu neysluverðs á milli 0,1% hækkunar upp í 0,33% hækkunina sem Landsbankinn gerði. Íslandsbanki hitti þó á rétt, eða 0,20% hækkun, í spá sinni 10. desember, en hann spáir 3,7% verðbólgu að jafnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Þeir liðir sem Hagdeild Landsbankans telur að vegi mest til hækkunar vísitölunnar í janúar er húsnæði án reiknaðrar húsaleigu, eða um 0,20%, en einnig vegur hækkun bensín og dísilolía 0,09%, en aðrir liðir minna.Á móti kemur að til lækkunar telur bankinn föt og skó vega mest, eða um 0,39%, vegna janúarútsala, en einnig húsgögn og heimilisiðnað eða um 0,30%.

Stikkorð: Landsbankinn Hagsjá verðbólga