Viðskiptabankarnir spá því að vísitala neysluverðs lækki um 0,033% milli janúar og desember. Ef spá þeirra gengur eftir verður 12 mánaða verðbólga í janúar 4,1% og því óbreytt frá desember.

Bankarnir eru ekki alveg sammála um stefnu vísitölunnar milli mánaða. Þannig spá bæði Landsbankinn og KB banki lækkun hennar milli mánaða en Íslandsbanki hækkun. Landsbankinn spáir 0,2% lækkun en KB banki 0,1% lækkun. Íslandsbanki spáir hins vegar 0,2% hækkun milli mánaða.

Ef spá Landsbankans gengur eftir fer 12 mánaða verðbólga niður í 3,8% og undir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Spá KB banka gerir ráð fyrir að 12 mánaða verðbólga verði 3,9% í janúar. Íslandsbanki gerir hins vegar ráð fyrir að 12 mánaða verðbólga verði 4,3%.

Landsbankinn segir í spá sinni að stærstan þátt í lækkun vísitölunnar í janúarmánuði eiga útsölur á fatnaði og skóm og gerir bankinn ráð fyrir að áhrif þeirra verði um 0,5% til lækkunar á vísitölunni. Vetrarútsölur hafa verið að færast framar í tíma og byrja nú flestar þeirra í upphafi janúar. Lækkun liðarins í janúarmánuði hefur því aukist umtalsvert síðastliðin ár af þessum sökum. Til að mynda lækkaði liðurinn einungis um rúm 2% í janúarútsölunum árið 1998, en í útsölunum þetta árið lækkaði hann um 10%.

Íslandsbanki segir í rökstuðningi sínum fyrir spánni að útsölur hafa umtalsverð áhrif til lækkunar á vísitölunni og gerir bankinn ráð fyrir sambærilegri dýpt útsala og í fyrra. Í móti vega hins vegar margir þættir sem hafa áhrif til hækkunar. Íbúðaverð virðist hafa hækkað myndarlega síðustu vikurnar og mun að líkindum hafa rík áhrif til hækkunar vísitölunnar í janúar. Árlegur útreikningur á fasteignamati mun nær örugglega leiða til stórhækkunar á fasteignagjöldum og hafa þannig veruleg áhrif til hækkunar á vísitölunni. Hinar ýmsu gjaldskrár hækka iðulega um áramót og ekki er ástæða til að ætla að önnur verði raunin núna. Þá var eldsneytisverð hér á landi nýlega hækkað og þróun á heimsmarkaðsverði bendir til frekari hækkunar áður en að næstu mælingu Hagstofu kemur. Einnig er útlit fyrir áframhaldandi hækkun matvöruverðs á næstu dögum og vikum.

Íslandsbanki segir að reikna megi með því að verðbólgan muni hjaðna lítillega í febrúar og fari jafnvel undir efri þolmörkin. Nokkur bið virðist þó í að verðbólgan nálgist markmið Seðlabankans.