Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í mars frá fyrri mánuði. Verðbólga mun samkvæmt því aukast úr 4,1% í 4,2% í marsmánuði, að því er kemur fram í nýrri verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka .

Í spánni segir að hækkandi eldsneytisverð og útsölulok skýri stærstan hluta af hækkun neysluverðs í marsmánuði. Verðbólguhorfur séu hins vegar góðar og líklega verði verðbólga komin niður í 2,5% markmið Seðlabankans í árslok.

„Eldsneytiverð er sá einstaki liður sem mest áhrif hefur til hækkunar VNV í mars. Verð á eldsneyti hefur hækkað gífurlega á heimsmarkaði undanfarna mánuði, að stórum hluta vegna væntinga um aukna eftirspurn eftir Kórónukreppuna en einnig vegna aðgerða OPEC í því skyni að halda aftur af framboði. Til að mynda er verð á Brent-olíu nú rétt tæpir 70 Bandaríkjadollarar á hverja tunnu. Er það 60% hærra verð en var að jafnaði á 3. fjórðungi síðasta árs. Frá nóvember sl. hefur eldsneytisverð hér á landi hækkað um 6,5% og bendir könnun okkar til þess að það muni hækka um tæplega 4% (0,13% áhrif á VNV),“ segir í spá bankans.

Helsti drifkraftur í hjöðnun verðbólgunnar á komandi fjórðungum sé styrking krónu í spáforsendum Greiningar. Krónan hafi haldið allvel sjó undanfarna mánuði og meiri líkur en minni séu á styrkingu hennar seinna á árinu þegar ferðamannagjaldeyrir byrji vonandi aftur að streyma til landsins.