Greiningadeild Arion banka spáir 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs í september en Hagstofa Íslands birtir gildi hennar 26. næstkomandi. Breytinguna má rekja til hækkunar á fatnaði og skóm, þar sem sumarútsölum er lokið, flugfargjöldum og húsnæðis.

Á móti kemur að dagvörur lækka lítillega í verði og verð á eldsneyti stendur nánast í stað. Frá því Hagstofa Íslands mældi verðlag í ágúst hefur gengi krónunnar gagnvart evru veikst um eitt prósent en þrátt fyrir það benda verðkannanir til að gengisáhrifin verði hverfandi í mælingunni í september.

Ef spáin fyrir neysluverðsvísitöluna í september raungerist verður tólf mánaða verðbólga áfram 4,3% og verðbólga á þriðja ársfjórðungi 4,2% en Seðlabankinn spáir 4% verðbólgu á fjórðungnum. Framundan er áframhaldandi verðbólga sem Greiningadeild Arion banka telur að stafi meðal annars af hækkandi húsnæðisverði og húsaleigu.

Þá eru kjarasamningar lausir í lok nóvember og eru samningsviðræður í það að hefjast þar sem hagsmunaaðilar áttu fund með forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum síðastliðinn miðvikudag. Væntingar heimilanna um lofaðar aðgerðir í skuldamálum þeirra munu áfram styðja við einkaneyslu og húsnæðismarkaðinn.