*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 17. maí 2021 10:39

Spá 4,4% verðbólgu í maí

Íslandsbanki hefur spáð því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,4% í maí og að verðbólga verði 4,4%, úr 4,6% í apríl.

Ritstjórn
Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólga verði 4,4% í maí.
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,4% í maí frá mánuðinum á undan. Gangi sú spá eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 4,4% en hún var 4,6% í apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Útlir er fyrir að verðbólgutoppnum hafi verið náð í apríl og að verðbólga fari nú að hjaðna. Spáð er að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,4% í júní, haldast óbreytt í júlí og hækka um 0,4% í ágúst. Gangi sú spá eftir verður verðbólga 4,2% í ágúst. Í kjölfarið er búist við því að verðbólga fari að hjaðna hraðar og nálgist markmið Seðlabankans um mitt næsta ár.

Undanfarna mánuði hafa hækkanir á húsnæðisverði vegið þyngst til hækkana á vísitölu neysluverðs. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5% á milli mánaða í apríl og hefur hækkað um 3,8% frá byrjun árs. Þá er spáð því að húsnæðisverð muni hækka um 1,4% í maí sökum mikillar eftirspurnar.

Aðrir liðir sem vega til hækkunar á vísitölunni í maímánuði eru tómstundir og menning, matar- og drykkjarvörur auk ferða og flutninga.