Greiningardeild Arion banka telur aðstæður í efnahagslífinu til þess fallnar að auka bjartsýni. Atvinnuleysi hefur sjaldan verið jafn lágt, hagvaxtarhorfur eru miklar og afnám hafta er komið vel á veg.

Aðeins þrjú OECD ríki geta státað sig af meiri hagvexti en Ísland. Samkvæmt tölum hagstofunnar mældist hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi 4,2% og var það sterkasti fyrsti fjórðungur síðan 2008. Greiningardeild Arion spáir nú 4,9% vexti á þessu ári.

Kortavelta vísbending um aukna einkaneyslu

Kortavelta jókst um 11,3% á fyrsta ársfjórðungi 2016, en var heil 12,4% á seinni ársfjórðungi. Einkaneysla jókst um heil 7,1% á fyrsta ársfjórðungi, og er það mesti einkaneysluvöxtur á einum fjórðungi síðan 2008. Rekja má aukninguna til launahækkana og aukins kaupmáttar. Engu að síður hafa áhrif EM í fótbolta mikil áhrif á þessar tölur. Kortavelta jókst sem dæmi um 44,6% í júní.

Þjónustuútflutningur í sókn

Á fyrstu sex mánuðum ársins sóttu tæplega 700.000 ferðamenn landið heim. Útlit er fyrir það að árið 2016 verði enn eitt metárið í komu ferðamanna. Heildarvelta erlendra korta nam 99 milljörðum króna, sem jafngildir 66% aukningu milli ára. Um er að ræða talsverða aukningu á kortaveltu milli ára, þar sem erlendum ferðamönnum fjölgaði um 35%.

Flugvélagakaup stór breyta

Flugvélakaup voru stór breyta í íslenskri fjárfestingu. Gott er að skoða tölur um innflutning og fjárfestingu án flugvéla- og skipakaupa. Sú upphæð getur gefið skýrari mynd af undirliggjandi fjárfestingum í hagkerfinu, þar sem flugvéla- og skipakaup eru einkar óreglulegir liðir. Engu að síður sýna þessar miklu fjárfestingar aukinn þrótt í hagkerfinu.