Líklegt er að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka stýrivexti um hálfa prósentu næst þegar hún kemur saman, sem verður á morgun, að mati hagfræðideildar Landsbankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar segir jafnframt að búast megi við jafnri og þéttri hækkun stýrivaxta á næstunni.

Fram kemur að verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hafi hækkað mikið það sem af er ári og er það til marks um að markaðurinn hafi litla trú á getu Seðlabankans til þess að ná tökum á verðbólgunni. Trúverðugleiki Seðlabankans sé því að veði samtímis því sem verðbólgan virðist á leið að verða almennari, ef marka má kjarnaverðbólgu.

„Verðbólguspá SÍ nú í ágúst bendir til þess að umtalsverðar vaxtahækkanir séu framundan ef Peningastefnunefndin hvikar ekki frá því að standa við lögbundin markmið Seðlabankans. Í lögum um bankann kemur skýrt fram að hans meginmarkmið sé að stuðla að stöðugu verðlagi og það hefur síðan verið skilgreint sem hækkun neysluverðs um 2½% á tólf mánaða tímabili. Í lögunum segir einnig að verðbólgumarkmið hafi forgang umfram önnur markmið,“ segir í tilkynningunni.

Því er svo bætt við að besta leiðin til þess að byggja upp trúverðugleika sé að halda við mótaða og fyrirsjáanlega stefnu og ummæli seðlabankastjóra í liðinni viku bendi til þess að nefndin muni ekki hvika frá stefnu þeirri sem mörkuð var í ágúst.

„Svigrúm peningastefnunefndarinnar liggur að mati Hagfræðideildar á bilinu 50-100 punktar. Í ljósi mikillar óvissu um efnahagsframvinduna, bæði hér heima og erlendis og þrýstings á Seðlabankann um að fara gætilega í vaxtahækkanir til að kæfa ekki viðkvæman hagvöxt í fæðingu, telur Hagfræðideild Landsbankans að hækkunin verði við neðri mörk bilsins. Að hennar mati mun Peningastefnunefndin því hækka vexti um 0,5% þann 21. september næstkomandi,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum.