Fjármálaráðgjöf Capacent spáir því að stýrivextir Seðlabanka Íslands verði lækkaðir um 0,5 prósentustig á vaxtaákvörðunarfundi þann 18. mars, en í tilkynningu segir að þessi spá ráðist þó af framvindu hagvaxtar og kjarasamninga.

Segir í tilkynningunni að aðhald peningastefnunnar nú sé svipað og það var á útrásarárunum 2005 til 2006. „Aðhaldið er þó minna en það var árið 2007. Hins vegar eru vopn Seðlabankans beittari nú en þá, bæði er vægi óverðtryggðra lána umtalsvert meira og aðgangur að erlendu lánsfé er mjög takmarkaður eða ekki til staðar. Peningamálastefnunefndin getur því treglega vísað til fyrri fordæma enda voru stýrivextir í besta falli bitlaus hnífur.“

Tölur um hagvöxt fyrir árið 2014 birtast þann 10. mars næstkomandi. Hagvöxtur fyrstu 9 mánuði síðasta árs nam hálfu prósenti, en spár hljóða upp á 2% hagvöxt fyrir árið 2014. Ef sú verður raunin, styðja fá rök núverandi vaxtaaðhald, að mati Fjármálaráðgjafa Capacent.