Krónur
Krónur
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Greiningardeild Arion banka spáir því að ársverðbólgan verði í kringum 5,2% í árslok. Hagstofan birti í dag verðbólgutölur og mælist ársverðbólgan í ágúst 5% sem er sú sama og í júlí.  Greiningardeild spáði 0,4% hækkun milli mánaða. Spá greiningaraðilar því að sá verðbólgukúfur sem gengið hefur yfir sé senn á enda. Að mati greiningardeildar mun nú hægja á verðbólguhraðanum, þrátt fyrir að enn eigi  kostnaðarhækkanir eftir koma fram. Þá er sagt að útlit sé fyrir að stærsu skellirnir hafi þegar komið fram í verðlagi. Dregið heur úr hrávöruverðshækkunum út í heimi, en þær hafa verið einn stærsti áhrifaþátturinn í verðbólgunni hér heima upp á síðskastið.

Í markaðspunktum greiningardeildarinnar segir: "Seðlabankinn birti í síðustu viku uppfærða verðbólguspá í Peningamálum fyrir árin 2011-2013. Það sem vekur athygli nú er hversu svartsýnn Seðlabankinn er á verðbólguhorfur næstu misserin. Spáir bankinn því að ársverðbólga mælist nálægt 7% á fyrsta fjórðungi næsta árs í stað 3% líkt og fyrri spá þeirra gerði ráð fyrir. Seðlabankinn hefur reyndar hingað til brennt sig á því að vanspá verðbólgu á árinu (og síðustu ár) og hefur því ítrekað þurft að hækka spá sína við útgáfu nýrra Peningamála. Hins vegar má nú velta því fyrir sér hvort bankinn hafi ekki rækilega skotið sig í hinn fótinn og vanmetið kraft framleiðsluslakans í hagkerfinu – sem er enn rúmlega 3% af framleiðslugetu hagkerfisins skv. nýjustu spá þeirra."