OECD hefur gefið út hagvaxtaspá fyrir heimshagkerfið og þ.á.m. Ísland. OECD spáir hagvexti á Íslandi upp á 5,2% árið 2022 og 4% árið 2023. Efnahags- og framfarastofnunin spáir jafnframt 5% hagvexti á Íslandi á árinu sem er að líða. Endurkoma ferðaþjónustu og útflutningur á fiski og áli eru sagðir lykilþættir í hagvexti næstu ára.

Í skýrslunni er meðal annars komið inn á að Seðlabanki Íslands sé byrjaður í vaxtahækkunarferli til að bregðast við verðbólgunni, sem mældist 4,8% í nóvember samkvæmt tölum Hagstofunnar. Jafnframt kemur OECD inn á að stafræn nýsköpun á vinnumarkaði, sér í lagi á opinberum vinnumarkaði, muni hjálpa hagkerfinu að ná vopnum sínum á ný, auk þess að grænar stafrænar lausnir og hærri kolefnisgjöld geti hjálpað Íslandi að ná loftslagsmarkmiðum sínum.

Í skýrslunni er einnig spáð því að atvinnuleysi hérlendis dragist saman og verði 3,6% árið 2023, en Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að árstíðaleiðrétt atvinnuleysi hefði verið 5,8% í október, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Skýrsla OECD fjallar um verðbólguna í heimshagkerfinu sem hefur reynst þrálátari en búist var við í fyrstu en spáir því að hún muni hjaðna á næstu árum. Verðbólga verði komin undir 2% á evrusvæðinu í lok árs 2022 og undir 2,5% í Bandaríkjunum árið 2023.