Greiningardeild Arion banka spáir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs í ágúst.  Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan mælast 5,2% samanborið við 5% í júlí. Í spánni segir að verðbólguna megi að þessu sinni rekja til áhrifa vegna útsöluloka, en þau koma fram að hluta í ágúst og afgangurinn í september. Eldsneytisverð hefur áhrif til lækkunar. Gangi bráðabirgðaspá greiningardeildar eftir er útlit fyrir að 12 mánaða verðbólga verði rétt undir 6% í árslok.

Hagstofan birtir tölur um vísitölu neysluverðs í ágúst á morgun.

Helstu þættir í ágústspá greiningardeildar:

· Útsölulok. Sumarútsölur komu fram af fullum þunga í júlí og voru áhrifin í takti við væntingar (-0,6%). Miðað við reynslu síðustu ára má gera ráð fyrir að áhrif vegna útsöluloka dreifist á tvo mánuði – ágúst og september. Heildaráhrif í ágúst: +0,30%.

· Húsnæðisliðurinn áfram til hækkunar. Aukin umsvif á fasteignamarkaði eru enn og aftur að skila sér í verðbólgutölum. Þessu til viðbótar hefur kostnaðarliðurinn, viðhald og viðgerðir húsnæðis, einnig hækkað. Frá áramótum hefur húsnæðisliðurinn í heild leitt til 1,2% hækkunar VNV – eða sem samsvarar rúmlega þriðjungi af mældri verðbólgu ársins. Greiningardeild gerir ekki ráð fyrir að breyting verði á þeirri þróun og að húsnæðisliðurinn muni áfram hafa áhrif til hækkunar. Heildaráhrif í ágúst:+0,10%.

· Flugfargjöld hækka á ný. Flugfargjöld hafa nú lækkað tvo mánuði í röð eftir kröftugar verðhækkanir í vor. Almennt er þessi liður afar sveiflukenndur og má segja að verðlækkun einn mánuðinn er oft á tíðum ávísun á verðhækkun þann næsta. Í ljósi þessa gerum við ráð fyrir verðhækkun í ágúst. Heildaráhrif í ágúst: +0,05%.

· Eldsneytisverð lækkar. Óróinn úti í heimi hefur leitt til þess að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað á síðustu vikum. Miðað við þróunina á heimsmarkaðsverði á bensíni á evrópumarkaði hefur innkaupaverð olíufélaganna lækkað að meðaltali um 10% frá mánaðamótum. Sú lækkun hefur hins vegar aðeins skilað sér að hluta út í verðlagið hér heima. Ef fram fer sem horfir er ekki ólíklegt að frekari verðlækkanir séu framundan og líklegt að frekari áhrif vegna þessa komi fram í september. Heildaráhrif í ágúst: -0,05%.