Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% í september frá mánuðinum á undan. Gangi spá þeirra eftir eykst 12 mánaða verðbólga úr 5,0% í 5,6%, en svo mikil hefur verðbólga ekki verið frá júní í fyrra. Hagstofan birtir VNV fyrir mánuðinn kl.9 þann 28. september næstkomandi. Útsölulok munu að mati greiningar Íslandsbanka skýra ríflega helming hækkunar VNV í september. Þanig er gert ráð fyrir að verðhækkun á fötum og skóm hafi áhrif til 0,35% hækkunar vísitölunnar nú, og að hækkun verðs á húsgögnum og heimilisbúnaði skýri 0,1% til viðbótar.

Í morgunkornum Íslandsbanka segir að ávallt komi til ýmsar verðskrárhækkanir í september á tómstundastarfi og afþreyingu að ýmsu tagi. "Má þar nefna hækkun á áskriftargjöldum Stöðvar 2, sem tók gildi um síðustu mánaðamót. Einnig endurskoða íþróttafélög, leikhús og sérskólar gjarna gjaldskrár sínar í upphafi nýs starfsárs. Hins vegar gerum við ekki ráð fyrir að húsnæðisliðurinn hafi áhrif til hækkunar að þessu sinni, og eldsneytisverð er á svipuðum slóðum og við síðustu verðbólgumælingu."