Vísitala neysluverðs mun hækka um 0,9% í febrúar frá fyrri mánuði og ársverðbólgan mun fara úr 5,7% upp í 5,9%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka.

Greiningadeild Íslandsbanka spáir því að verðbólgan muni vera í sínum hæstu gildum næstu mánuði áður en hún tekur að hjaðna jafnt og þétt. Bankinn spáir því að verðbólgan verði komin niður við 2,5% verðbólgumarkmið í byrjun árs 2024, en tekur fram að óvissan er mikil og aðstæður fljótar að breytast. Hagstofan birtir verðbólgutölur fyrir febrúarmánuð þann 25. febrúar næstkomandi.

Húsgögn og heimilisbúnaður hækka um 3,1% í mánuðinum og föt og skór um 4,1%, en líkt og gjarnan í febrúar lita útsölulok mælinguna í febrúar. Auk þess er útlit fyrir að innflutt verðbólga muni láta á sér kræla. Í spá Íslandsbanka segir jafnframt að húsnæðisliðurinn vegi enn þungt í vísitölu neysluverðs og að reiknuð húsaleiga hækki um 1,1%. Eldsneytisverð hækkar um 3,4% á milli mánaða samkvæmt mælingu bankans.

Mikil og ört vaxandi verðbólga er um allan heim um þessar mundir. Verðbólgan í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri í 40 ár og mældist 7,5% í janúarmánuði. Verðbólgan á evrusvæðinu mælist yfir 5%. Hætta er á að innfluttur verðþrýstingur verði langvinnari hér á landi og því hafa verðbólguhorfur næstu misserin versnað. Auk þess sér ekki fyrir endann á verðþrýsingi á íbúðamarkaði vegna framboðsskorts.

Bankinn telur að verðbólgan verði yfir 5% næstu fjórðunga en taki að hjaðna fyrir alvöru í lok ársins. Langtímaspá bankans hljóðar upp á 5,5% verðbólgu að meðaltali árið 2022 og 3,4% árið 2023. Verðbólgan verði komin niður í 2,6% að meðaltali fyrir árið 2024, samkvæmt spánni.

verðbólguspá, íslandsbanki
verðbólguspá, íslandsbanki
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Forsendur þess að spá bankans gangi eftir er að það hægist á íbúðamarkaði með hækkandi vöxtum og auknu framboði. Jafnframt að kjarasamningar verði í hóflegri kantinum. Bankinn bendir á að krónan hafi styrkst um 4% frá áramótum sem hjálpar til við að dempa innfluttu verðbólguna næstu mánuðina. En langvinnur framboðsvandi á íbúðamarkaði gæti þó gert verðbólguna þrálátari en er spáð.