Út frá spá um afkomu félaganna í ár, verðkennitölum sem byggja á spánni, verðmötum sinni á fyrirtækjunum og almennri stöðu á hlutabréfamarkaðinum draga Íslandsbankamenn þá ályktun að búast megi við því að markaðurinn haldi áfram að hækka. Þeir spá því að hækkun Úrvalsvísitölunnar frá ársbyrjun til ársloka verði 30-39%. Þetta jafngildir 6-13% hækkun til áramóta. Spáin er mjög háð því hvað verður með stærstu félögin en þau fimm stærstu vega samtals 79% í Úrvalsvísitölunni.

Þetta kemur fram í nýrri spá Greiningar Íslandsbanka sem birt var fyrr í dag.

"Ávöxtun á hlutabréfamarkaði var hófleg á öðrum ársfjórðungi í samanburði við það sem verið hefur síðustu misserin. Úrvalsvísitalan hækkaði um 5,5% á tímabilinu í kjölfarið á 16,6% hækkun á fyrsta ársfjórðungi. Engu að síður er 5,5% talsverð hækkun reiknuð á ársgrundvöll, eða um 24%. Er það vel yfir því sem hægt er að búast við af hlutabréfamarkaði til langs tíma litið. Frá ársbyrjun nemur hækkun Úrvalsvísitölunnar 23%," segir Greining Íslandsbanka.