Íslandsbanki spáir því hagnaður Kaupþings banka og Landsbankans muni nema samtals rúmlega 60 milljörðum króna á þessu ári. Þetta kemur fram í afkomuspá Íslandsbanka sem kom út í gær. Hagnaður Kaupþings banka mun nema 41,6 milljörðum króna á þessu ári en hagnaður Landsbankans 19,8 milljörðum króna ef spá bankans gengur eftir. Spár Íslandsbanka fyrir þessa tvo banka á árinu hafa sífellt farið vaxandi en bankinn hefur birt sínar spár ársfjórðungslega; í janúar, apríl, júlí og nú október.

Í upphafi ársins spáði Íslandsbanki því að Kaupþing banki myndi hagnast um 18,5 milljarða króna en Landsbankinn um 5,4 milljarða króna. Spá Íslandsbanka fyrir Kaupþing banka hefur því vaxið um 125% en spáin fyrir Landsbankann hefur vaxið um 264%. Ástæðan fyrir hækkandi spá má að einhverju leyti rekja til mikils gengishagnaðar en íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur gefið mun betri ávöxtun en Íslandsbanki spáði fyrir um í upphafi árs.

Þessum tveimur aðilum er spáð mestum hagnaði af þeim sem Íslandsbanki spáir fyrir um. Næst á eftir þeim kemur Straumur - Burðarás en honum er spáð 14,2 milljarða króna hagnaði. Töluvert á eftir honum kemur Actavis með 6,6 milljarða króna og FL Group með 6,5 milljarða króna. Tryggingamiðstöðinni er síðan spáð 5,7 milljarða króna hagnaði.

Byggt á frétt í Viðskiptablaðinu í dag.