Greiningardeild MP banka spáir 75 punkta lækkun stýrivaxta. Stýrivaxtafundur peningastefnunefndar Seðlabankans er næstkomandi miðvikudag.Yrði það í þrettánda sinn að vextir lækki frá því að nefndin tók við vaxtaákvörðunarhlutverkinu fyrir hálfu öðru ári.

„Í nýjustu fundargerð peningastefnunefndarinnar kemur fram að við vaxtaákvörðun í  september hafi verið rætt um að þrengja vaxtaganginn. Við teljum að það verði gert nú,“ segir í markaðsvísi greiningardeildarinnar.

Greiningardeildin segir að búast megi við að nú fari vaxtalækkunarferlinu að ljúka. Hugsanlegt sé að vextir verði lækkaði lítið eitt í desember en upp úr áramótum muni áherslan flytjast á afnám gjaldeyrishafta. „Þá er viðbúið að Seðlabankinn muni einnig auka við regluleg gjaldeyriskaup sem mun hægja á styrkingu krónunnar.“

Unnið að afnámi hafta - efnahagsástand slæmt

„Enn er unnið samkvæmt þeirri áætlun að hefja afnám gjaldeyrishafta eins fljótt og auðið er. Þess vegna er æskilegt að raunvaxtamunur við viðskiptalönd sé nægjanlegur til þess  að ekki skapist fjármagnsflótti þegar slakað er á höftunum. Á móti því kemur að efnahagsástandið er slæmt og töluverðar líkur á að það versni enn að öðru óbreyttu.

Vextir þurfa því að enn að lækka til þess að stuðla að fjárfestingu og raunvaxtastigið er enn of hátt. Framleiðsluslaki í hagkerfinu er mjög mikill og framleiðsluþættir ónýttir. Verðbólgan hjaðnar enn, meðal annars vegna þess að gjaldeyrishöftin styðja við krónuna.

Verðbólguhættan er fyrst og fremst á kostnaðarhliðinni. Ef samið verður um miklar launahækkanir er hætta á að þær rati út í verðlag. Lægri vextir og hærra gengi kunna að halda aftur af launahækkunum og því sennilegt að innlent efnahagsástand vegi tiltölulega þungt við vaxtaákvörðun nú. Við reiknum því með því að stýrivextir, þ.e. vextir á lánum gegn veði, verði nú lækkaðir um 0,75%.“

Aukin munur á inn- og útlánsvöxtum

Frá því í byrjun síðasta árs hafa vextir á lánum verið lækkaðir úr 18% í 6,25% og vextir á viðskiptareikningum úr 17,5% í 4,75%.

„Lán gegn veði liggja oftast nær á miðju vaxtagangsins en vextir á viðskiptareikningum mynda neðri mörk hans. Vídd gangsins var 1% meðan stýrivextir voru 18%. Nú eru stýrivextir 6,25% og vídd gangsins 3%. Munurinn á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum Seðlabankans hefur aukist á sama tíma og vextir hafa lækkað. Þetta getur valdið stökki eða óþarfa sveiflum í vaxtastiginu þegar virkni lánakerfsins eykst á ný sem vonandi gerist með lækkun vaxta.“

Spá 0,5% lækkun á viðskiptareikningum innlánsstofnanna

„Frá því að stóru bankarnir féllu og gjaldeyrishöftin voru sett á hafa vextir á viðskiptareikningum verið virkir stýrivextir Seðlabankans. Staða veðlána hjá Seðlabankanum hefur aukist nokkuð á árinu, úr því að vera 6,5 ma.kr. fyrir hálfu ári í rúma 13 ma.kr. að jafnaði undanfarið. Á sama tíma hefur staða innstæðubréfa lækkað, úr 80 til 90 mö.kr. í rúma 60 ma.kr. en vextir innstæðubréfa eru jafnan um 0,25% til 0,3% undir vöxtum á lánum gegn veði.

Vægi útlánsvaxta Seðlabankans er því farið að aukast á ný þótt innlánsvextirnir séu enn ráðandi. Því virðist vera tímabært að huga að því að draga úr muni á þessum vöxtum Seðlabankans. Þess vegna reiknum við með að vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana verði nú lækkaðir um 0,50%.“