Hagvöxtur á þessu ári verður 7,6% samkvæmt hagspá Landsbankans sem Greiningardeild Landsbankans kynnti á fundi í morgun. Í spánni er reiknað með því að jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum á næstu árum og að sá mikli viðskiptahalli sem fyrirsjáanlegur er á þessu og næsta ári lækki tiltölulega hratt án þess að gengi krónunnar falli skarpt. Á næsta ári er spáð 7,3% hagvexti, en þá verður farið að draga verulega úr innflutningi frá því sem hann mælist í ár. Á tímabilinu 2007-2010 er útlit fyrir að hagvöxturinn verði mun minni eða á bilinu 0,5 - 2% á ári.

Horfur eru á að verðbólgan verði 1-1½% yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%) næstu árin, vegna mikillar umframeftirspurnar. Auk þess gerum við ráð fyrir að gengi krónunnar lækki jafnt og þétt frá seinnihluta næsta árs og að gengisvísitalan verði komin í 127 stig við lok spátímabilsins. Frá og með árinu 2008 eru horfur á því að verðbólgan haldist í námunda við verðbólgumarkmiðið.

Til þess að efnahagsmálin þróist með þeim hætti sem reiknað er með í hagspánni þarf margt að ganga upp, en mikilvægast er að framvindan á fasteignamarkaði, vinnumarkaði og gjaldeyrismarkaði verði hagfeld auk þess sem stjórnun peninga- og ríkisfjármála má ekki bregðast segir í Vegvísi Landsbankans.