Greiningardeild Landsbankans hefur sent frá sér afkomuspá þar sem spáð er fyrir um afkomu sextán félaga í Kauphöll Íslands. Við gerum ráð fyrir að hagnaður félaganna nemi samtals 31,2 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi og aukist um 78% á milli ára. Þetta er gífurleg aukning á milli ára eða um 13,7 ma.kr. en að lang mestu leyti er það tilkomið vegna mikillar hagnaðaraukningar hjá Kaupþing banka.

Gert er ráð fyrir að velta ellefu stærstu félaga í framleiðslu, þjónustu og iðnaði aukist um 8% á fyrsta ársfjórðungi í samanburði við fyrra ár. Þar af er gert ráð fyrir miklum vexti hjá Og fjarskiptum, HB Granda og SH. Öll þessi félög hafa ráðist í yfirtökur á undanförnu ári sem skýrir að mestu aukningu tekna á milli ára. Á móti kemur að við spáum 18% veltusamdrætti
hjá Actavis sem skýrist af því að óvenju stór lyf voru markaðssett á fyrsta ársfjórðungi í fyrra sem skiluðu miklum tekjum.

Við gerum ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nemi 8 mö.kr. og aukist um 4,6% frá fyrra ári. Þar sem EBITDA hagnaður er að vaxa minna en tekjur þá áætlum við að EBITDA framlegð félaganna dragist saman á milli ára úr 10,9% í 10,2%. Lægra framlegðarhlutfall skýrist að hluta til af því að yfirtekin félög eru með miklar tekjur en lága
framlegð, samanber yfirtöku Og fjarskipta á Frétt og ÍÚ. Einnig vegur þungt að við spáum að framlegðarhlutfall Actavis lækki um 2,6% á milli ára. Við spáum að hagnaður félaganna nemi 4,1 ma.kr. þar af mestum hagnaði hjá Actavis (1,4 ma.kr.) og HB Granda (0,7 ma.kr.).