Töluverð óvissa um afdrif kjarasamninga litar hagspá greiningardeildar Arion banka fyrir þetta árið en hún var birt í salarkynnum bankans í gærmorgun. Í henni er gert ráð fyrir 2,8% hagvexti á þessu ári, 3,3% hagvexti á næsta ári og 3,5% hagvexti árið 2017. Er þetta nokkuð undir meðaltali hagvaxtarspáa annarra greiningaraðila að undanskilinni spá bankans fyrir árið 2017 en þar gera t.a.m. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabankinn og Landsbankinn ráð fyrir 2,9% hagvexti. Þá telur hún að hagvöxtur næstu þriggja ára verði drifinn áfram af talsverðum vexti í fjárfestingu og einkaneyslu auk þess sem framlag utanríkisviðskipta verði jákvætt á næstu tveimur árum.

Ferðamenn og launaþróun

Spurð hvað hafi helst breyst frá fyrri spá bankans segir Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildarinnar, að aukin óvissa vegna kjarasamninga og aukinn fjöldi ferðamanna hafi helst breytt horfunum. Greiningardeildin spáir því að ferðamönnum fjölgi á næstu árum og að draga muni úr árstíðasveiflum. Erfitt sé þó að segja til um hver áhrif kjarasamninganna verða á launaþróun þar sem allar kröfur eru ekki enn komnar á borðið.

Greiningardeildin gefur sér engu að síður þá forsendu að samningum ljúki í sumar, að launavísitalan hækki um 8% á seinni hluta ársins og að launahækkanir myndu halda áfram á næstu tveimur árum. „Það þýðir ekki að við spáum átta prósenta nafnlaunahækkunum heldur að launavísitalan í heildina muni hækka um það hlutfall. Það er erfitt að segja til um hver lendingin verður en við urðum að gefa okkur einhverjar forsendur og það er kannski meiri hætta á að [launahækkanir] verði meiri heldur en minni en þær sem við erum að spá,“ segir Regína.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .