Hagfræðideild Landsbankans spáir því að um níu prósent samdráttur verði í hagkerfinu á árinu en að hagvöxtur taki við sér á því næsta og nemi þá fimm prósentum. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhags- og verðbólguspá deildarinnar.

Spáin er gefin út tvisvar á ári og ber að þessu sinni yfirskriftina Efnahagsáfall aldarinnar.

„Aðdragandinn var mjög stuttur og kreppan jafnframt einstök að því leyti að hún er að stærstum hluta bein afleiðing af stjórnvaldsákvörðunum sem voru teknar til að hefta útbreiðslu hættulegrar og bráðsmitandi veiru sem nú herjar á alla heimsbyggðina. Stjórnvöld víða um heim hafa viljandi hægt á hjólum efnahagslífsins með víðtækum takmörkunum á ferða- og atvinnufrelsi og félagslegu frelsi fólks í þessum tilgangi,“ segir í inngangi spárinnar.

Tvær sviðsmyndir eru birtar í spánni. Í þeirri svartsýnu er gert ráð fyrir því að veiran blossi upp á nýjan leik og að efnahagsbatinn verði þar með hægari. Sú bjartsýnni gerir ráð fyrir því að efnahagsbati nágrannaríkjanna verði hraðari en ella.

Að mati greiningardeildarinnar er gert ráð fyrir því að útflutningur muni minnka um ríflega fjórðung, heildarfjármunamyndun dragast saman um 18% og einkaneysla um sjö af hundraði. Á móti mun samneysla og fjárfestingar hins opinbera taka kipp og innflutningur minnka um tæpan fjórðung.

Ferðamenn eru þessa dagana jafn algengir og tennur í hænugoggi. Spáin gerir ráð fyrir því að þeir verði um hálf milljón í ár, um fjórðungur af því sem þeir voru í fyrra, en um 1,2 milljónir á næsta ári. Bjartsýnni spáin gerir ráð fyrir að þeir verði um 700 þúsund í ár og tæplega 1,5 milljónir árið 2022. Svartsýnni sviðsmyndin spáir 750 þúsund ferðamönnum á næsta ári og tæplega 1,2 milljónum árið 2022.

Spáin fyrir atvinnuleysi er heldur ekki björt en að mati bankans mun það ná hámarki í ágúst og september þegar það verður um 13% en þá verður uppsagnarfrestur þeirra sem misstu starfið í lok apríl liðinn. Það mun síðan lækka lítillega áður en árið er á enda en þá verði um einn af hverjum tíu án atvinnu. Er þetta meira atvinnuleysi en mældist á árunum eftir efnahagshrun.

Þá munu utanlandsferðir minnka umtalsvert en þær hafa vaxið stöðugt frá 2014. Það ár eyddu Íslendingar um 121 milljarði króna á erlendri grund en 215 milljörðum í fyrra. Á móti námu tekjur af erlendum ferðamönnum 468 milljörðum í fyrra og 565 milljörðum 2018.

„Á þessu ári gerum við ráð fyrir að útflutt ferðaþjónusta dragist saman um 290 ma.kr. en innflutt ferðaþjónusta dragist saman á móti um 132 ma.kr. Samdráttur í gjaldeyristekjum vegna ferðaþjónustu í ár gæti því orðið um 158 ma.kr.,“ segir í spánni.

Þá gerir spáin ráð fyrir því að verð á íbúðum verði stabílt út árið en að verðbólgan gæti farið lítillega yfir verðbólgumarkið Seðlabankans í lok árs vegna veikingar krónunnar. Stýrivextir eigi síðan eftir að lækka enn frekar og verða lægstir 0,5% að því er fram kemur í spánni.