Fjárfestingabankinn Lehman Brothers hefur gefið út nýja spá um þróun olíuverðs, þar sem reiknað er með að verð olíutunnu fari niður í um 90 Bandaríkjadali á 1. ársfjórðungi 2009. Yfirhagfræðingur bankans, Ed Morse, segir að hátt olíuverð og samdráttur hagkerfa sé að byrja að hafa áhrif á eftirspurn, einkum í Bandaríkjunum. Eftir að olíutunnan hefur kostað meira en 80 dali í tæpt ár sé eftirspurnarteygni loks að taka við sér.

Þetta kemur fram í frétt Telegraph.

Morse telur að samdráttur í Bandaríkjunum og OECD-löndunum muni vega upp á móti vaxandi eftirspurn frá nýmarkaðsríkjum. Lehman spáir því að eftirspurn eftir olíu á árinu 2008 verði að meðaltali 83,6 milljónir tunna á dag. Það er aukning um 790.000 tunnur á dag frá árinu 2007.

Reiknað er með að verð olíutunnu verði komið í 110 dali undir lok þessa árs.