Þróun vísitölu launa gefur til kynna að hægt hefur á launahækkun á vinnumarkaði en skýrar vísbendingar um samdrátt á vinnumarkaði hafa látið standa á sér á sama tíma og vísbendingar eru nú komnar fram um samdrátt á öðrum sviðum hagkerfisins, svo sem í einkaneyslu og á íbúðarmarkaði, segir greiningardeild Glitnis.

„Skráð atvinnuleysi er til að mynda enn í miklu lágmarki og mældist 1% í apríl. Við gerum hins vegar ráð fyrir að vinnumarkaðurinn muni kólna allhratt á þessu ári enda er útlit fyrir mikinn samdrátt verkefna í byggingariðnaði og öðrum greinum. Til að mynda má gera ráð fyrir að þjónustugreinar af ýmsum toga muni eiga nokkuð undir högg að sækja næsta kastið eftir öran vöxt undanfarin misseri samfara vaxandi einkaneyslu. Þá mun að okkar mati draga nokkuð hratt úr hraða launahækkunar frá því sem hefur verið undanfarin ár enda hefur mikil eftirspurn eftir vinnuafli undanfarin tvö ár meðal annars birst í mikilli launahækkun.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá okkar dregst kaupmáttur launa saman um 2,6% á þessu ári en eykst svo hóflega næstu ár á eftir,“ segir greiningardeildin. Vísitala launa á fyrsta ársfjórðungi þessa árs mældist 127 stig og hækkaði um 2,8% frá fyrri ársfjórðungi samkvæmt upplýsingum sem Hagstofan birti í gærmorgun. Árshækkun vísitölunnar var 7,1% á fjórðungnum og hefur farið lækkandi undanfarið ár en til samanburðar var árshækkunin 11% á sama tíma fyrir ári.