Greiningardeild Glitnis reiknar með að gjaldeyrishöftum verði beitt enn um sinn enda ljóst að stöðugleika krónunnar hefur enn ekki verið náð sem er samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum grunnforsenda þess að aflétta hömlum á gjaldeyrismarkaði.

Í Morgunkorni greiningardeildar er bent á að geysimikil óvissa ríkir nú um gengisþróun enda genga Íslendingar nú í gegnum gjaldmiðlakreppu og tímabil gjaldeyrishafta. Gengi krónunnar hefur síðan í byrjun desember ákvarðast á millibankamarkaði sem tók við af tímabundnum uppboðsmarkaði Seðlabankans.

Til að byrja með styrktist gengi krónunnar á millibankamarkaði, en um miðjan desember byrjaði krónan að veikjast á nýjan leik sem vissulega er áhyggjuefni og vekur upp margar spurningar um framhaldið.

,,Meginverkefni stjórnvalda nú er að byggja upp trúverðuglega efnahagstefnu svo hægt verði að aflétta gjaldeyrishömlum án þess að gengi krónunnar lækki verulega. Spár um gengi krónunnar snúast að miklu leyti um þá skoðun hvort þetta muni takast eða ekki. Við reiknum með að gjaldeyrishöftum verði beitt enn um sinn enda ljóst að stöðugleika krónunnar hefur enn ekki verið náð sem er samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum grunnforsenda þess að aflétta hömlum á gjaldeyrismarkaði," segir í Morgunkorni.