Íslandsbanki hélt morgunverðarfund á mánudag ætlaðan fjárfestum þar sem þeim var kynnt efnahagsumhverfi íslenska hlutabréfamarkaðarins og afkomuspá skráðra félaga. Spá bankans sem unnin er af Greiningu Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hlutabréfaverð í íslensku kauphöllinni haldi áfram að hækka á þessu ári og því næsta.

21% hækkun á næsta ári
Greining bankans notast við eigin vísitölu hlutabréfaverðs, svokallaða K90% vísitölu, sem heldur inni þeim félögum sem hafa samtals í það minnsta 90% af veltu síðastliðna þrjá mánuði á markaði. Vísitalan hefur hingað til á þessu ári hækkað um 21% frá síðustu áramótum sem er nokkuð vel umfram 7,5% hækkun úrvalsvísitölu Kauphallarinnar. Spá bankans gerir ráð fyrir að K90% vísitalan hækki samtals um 28% á þessu ári og 21% á árinu 2014. Þessi spá er sett fram þrátt fyrir að samanburður félaga í Kauphöllinni við sambærileg erlend félög sýni að flest þeirra eru yfirverðlögð að Eimskip og Vodafone undanskildum.

Raunar er tekið nokkuð sterkt til orða í spánni þar sem sagt er að samanburður fyrir rekstrarfélögin bendi engan veginn til að hér sé verðbóla. Nokkrir þættir eru nefndir sem styðja við þessa spá en flestir eiga þeir það sameiginlegt að lýsa séríslenskum aðstæðum. Má þar nefna fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna sem er talin nema um 170 milljörðum á næsta ári og er gert ráð fyrir að 10% af þeirri fjárhæð rati inn á hlutabréfamarkað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .