Hagfræðideild Landsbankans spáir því að atvinnuleysi haldi áfram að minnka, en þó hægar en hefur verið á síðustu misserum. Slakinn í hagkerfinu hefur minnkað og atvinnuleysi er að nálgast jafnvægisstig, að því er fram kemur í Hagsjá.

Eins og sagt var frá á VB.is í dag mældist atvinnuleysi 3,6% í maí og hefur það ekki verið minna síðan í nóvember 2008. Atvinnuleysi hefur minnkað stöðugt síðustu misseri og meira en spár hafa gert ráð fyrir.

Þrátt fyrir mjög lágt atvinnuleysi spáir hagfræðideild Landsbankans því að atvinnuleysi haldi áfram að minnka. Sökum þess sé umræðan um nauðsynlegan innflutning vinnuafls vegna væntanlegra framkvæmda orðin mun meira áberandi en hefur verið.