Hagfræðideild Landsbankans telur að lækkun fasteignaverðs sé ekki gengin yfir og að fasteignaverð muni halda áfram að lækka næsta kastið. Íbúðaverð hafi þegar lækkað um u.þ.b. 13% að nafnvirði og tæplega 28% að raunvirði frá því að það náði hámarki haustið 2007. Í grunnspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að íbúðaverð muni lækka um u.þ.b. 32% að nafnvirði og 46% að raunvirði á milli áranna 2007 og 2011.

Hagfræðideildin spáir hratt lækkandi verðbólgu og byggir það á áframhaldandi eftirspurnarslaka og lækkun fasteignaverðs en gengisþróun krónunnar muni svo ráða úrslitum um framhaldið.

„Flest bendir til þess að verðbólga muni haldast áfram að dragast saman þegar líður á árið og spá okkar gerir ráð fyrir að verðbólga muni mælast í námunda við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á fyrri hluta næsta árs.

Núverandi verðbólguspá okkar gerir ráð fyrir að krónan sveiflist í námunda við 170-175 krónur á evru út árið 2009.”