Sölutölur hjá smásölum í Bandaríkjunum dragast lítillega saman milli mánaða samkvæmt miðgildisspá sérfræðingateymis Bloomberg. Þetta er til marks um veigamesti þáttur bandaríska hagkerfisins, einkaneyslan, sé að gefa eftir.

Einkaneysla telur fyrir meira en tvo þriðju af landsframleiðslu í Bandaríkjunum ár hvert. Smásala dróst saman um 0,3% í janúar eftir að hafa dregist saman um 0,4% í desember, en viðskiptaráðuneytið mun senda frá sér endanlegar tölur þann 13. febrúar næstkomandi.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri og Henry Paulson, fjármálaráðherra munu eiga fund með öldungadeild bandaríska þingsins í þessari viku þar sem farið verður yfir horfur og ástand í efnahagsmálum Bandaríkjanna. Verði væntur samdráttur í janúar að veruleika yrði það í fyrsta skipti í mörg ár sem samdráttur mældist í smásölu tvo mánuði í röð.

Viðskiptahallinn dregst saman

Samfara minnkandi einkaneyslu Bandaríkjamanna dregst viðskiptahallinn saman, en samkvæmt tölum frá viðskiptaráðuneytinu þar í landi dróst hallinn saman í desember fyrst og fremst vegna lægri kostnaðar við innflutta olíu. Dollarinn er jafnframt að falla, sem gerir bandaríska framleiðslu ódýrari á heimsmarkaði.

Þannig nam viðskiptahallinn 63,1 billjónum dollara í nóvember, en hafði dregist saman um 1,6 billjónir mánuði seinna.